Ægir og Glódís íþróttafólk Árborgar 2023

Ægir og Glódís með verðlaun sín á uppskeruhátíðinni í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Sigurjón Ægir Ólafsson, Íþróttafélaginu Suðra og Glódís Rún Sigurðardóttir, Hestamannafélaginu Sleipni, voru útnefnd íþróttakarl og íþróttakona Árborgar 2023 á uppskeruhátíð fræðslu- og frístundanefndar Árborgar sem haldin var á Hótel Selfossi í kvöld.

Fjórtán karlar og tíu konur voru tilefnd í kjörinu en sérstök valnefnd kaus á milli íþróttafólksins ásamt því sem almenningur kaus í netkosningu.

Frábær á alþjóðlegum vettvangi
Ægir sýndi það og sannaði á árinu hversu einstakur íþróttamaður hann en hann vakti gríðarlega athygli fyrir framgöngu sína á Special Olympics í Berlín í sumar og náði svo í gullverðlaun í Special Olympics flokki á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem fram fór í Litháen í nóvember.

Glódís Rún varð heimsmeistari ungmenna í fimmgangi á Sölku frá Efri-Brú á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins sem fram fór í Hollandi og saman náðu þær einnig Íslands- og Reykjavíkurmeistaratitli í sömu grein. Á Íslandsmótinu komst Glódís einnig í úrslit bæði í fjórgangi og slaktaumatölti á Breka frá Austurási.

Spennandi kosning
Glódís Rún hlaut 93 stig í kjörinu en önnur varð crossfitkonan Bergrós Björnsdóttir með 74 stig og handknattleikskonan Katla María Magnúsdóttir í 3. sæti með 58 stig. Hjá körlunum var meiri spenna en Sigurjón Ægir hlaut 74 stig, júdómaðurinn Egill Blöndal varð í 2. sæti með 70 stig og skotíþróttamaðurinn Hákon Þór Svavarsson í 3. sæti með 32 stig.

Auk útnefningar íþróttafólks ársins var fjöldi íþróttamanna heiðraður í kvöld fyrir góðan árangur á líðandi ári auk þess sem úthlutað var úr afreks- og styrktarsjóðum Árborgar og Umf. Selfoss, Golfklúbbs Selfoss, Körfuknattleiksfélags Selfoss og Hestamannafélagsins Sleipnis. Einnig voru árleg hvatningarverðlaun fræðslu- og frístundanefndar veitt og að þessu sinni komu þau í hlut félagsmiðstöðvarinnar Zelsíuz.

Guðmunda Bergsdóttir, verkefnisstjóri félagsmiðstöðvarinnar og Ellý Tómasdóttir, forstöðumaður frístundahúsa og forvarnarfulltrúi tóku á móti hvatningarverðlaununum fyrir hönd Zelsíuz. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Feðginin Ronja og Hafsteinn i hljómsveitinni Fljúgandi villisvín skemmtu gestum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri grein„Rosalega stutt á milli þrátt fyrir að maður sé hraustur“
Næsta greinEric Máni kjörinn íþróttamaður Hveragerðis