
Ægir jók forskot sitt á toppi 2. deildar karla í knattspyrnu í kvöld með sigri á Víði á heimavelli í Þorlákshöfn.
Ægismenn voru sterkari í fyrri hálfleiknum og fengu nokkur ágæt færi áður en Bjarki Rúnar Jónínuson braut loks ísinn rétt fyrir leikhlé.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Ægi gekk illa að byggja upp spil í seinni hálfleiknum og Víðismenn stjórnuðu ferðinni. Ægismenn héldu þó sjó og í uppbótartímanum kom varamaðurinn Bilal Kamal þeim í 2-0 með glæsilegu marki og þær urðu lokatölur leiksins.
Á sama tíma gerðu Þróttur V og Grótta 0-0 jafntefli og Ægismenn juku því forskot sitt í toppsæti deildarinnar. Ægir er nú með 26 stig, Þróttur V er með 23 stig í 2. sæti og Grótta og Haukar 20 stig í 3.-4. sæti.