Ægir í undanúrslitin

Ægismenn kampakátir eftir sigurleikinn í sumar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru komnir í undanúrslit 4. deildar karla í knattspyrnu eftir 2-2 jafntefli gegn Ými á Þorlákshafnarvelli í kvöld.

Ægir vann fyrri leik liðanna 2-0 og einvígið samtals 4-2. Ægir mætir Kormáki/Hvöt í undanúrslitunum en Kormákur/Hvöt vann Hamar 2-1 á Blönduósi í dag. Einvígi liðanna fór því 4-4 en Kormákur/Hvöt fer áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Ægismenn lentu undir gegn Ými í kvöld undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 0-1 í leikhléi. Goran Potkozarac jafnaði metin á 50. mínútu en Ýmismenn komust aftur yfir á 78. mínútu. Stefan Dabetic jafnaði aftur fyrir Ægi tveimur mínútum fyrir leikslok og þar við sat, 2-2.

Á Blönduósi komust heimamenn yfir á 41. mínútu og staðan var 1-0 í leikhléi. Bjarki Rúnar Jónínuson jafnaði fyrir Hamar á 77. mínútu en í millitíðinni hafði Sam Malson brennt af vítaspyrnu fyrir Hamar. 1-1 jafntefli hefði dugað Hamri til að komast áfram en Kormákur/Hvöt skoraði sigurmarkið tíu mínútum fyrir leikslok og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum.

Í undanúrslitunum er leikið heima og heiman og verður fyrri leikur Ægis og Kormáks/Hvatar á Blönduósi næstkomandi laugardag. Seinni leikurinn er kl. 17:00 miðvikudaginn 11. september í Þorlákshöfn og það lið sem sigrar samanlagt mun tryggja sér sæti í 3. deildinni að ári.

Fyrri greinBækur og bakkelsi í Húsinu á Eyrarbakka
Næsta greinFyrsti hópurinn í Ungmennabúðunum að Laugarvatni