Ægir eykur forskotið á toppnum

Atli Rafn Guðbjartsson og Bjarki Rúnar Jónínuson fagna marki þess fyrrnefnda í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir tók á móti Víkingi Ólafsvík í 2. deild karla í knattspyrnu í Þorlákshöfn í kvöld. Það tók Ægismenn smá stund að ná tökum á leiknum en á endanum unnu þeir öruggan sigur.

Ægismenn byrjuðu af krafti og áttu ágæt færi áður en Atli Rafn Guðbjartsson kom þeim í 1-0 á 11. mínútu. Eftir markið tóku Víkingar leikinn yfir, þeir jöfnuðu metin á 21. mínútu og voru mun líklegri til að bæta við mörkum í kjölfarið.

Staðan var 1-1 í hálfleik en Ægismenn voru sterkari í seinni hálfleiknum. Baptiste Gateau kom þeim aftur yfir á 50. mínútu og tíu mínútum síðar breytti Jordan Adeyemo stöðunni í 3-1. Víkingar svöruðu fyrir sig á 71. mínútu en tveimur mínútum fyrir leikslok var Adeyemo aftur á ferðinni og innsiglaði hann 4-2 sigur Ægis.

Þar sem Dalvík/Reynir tapaði 0-1 gegn Gróttu í kvöld þá tókst Ægismönnum að auka forskot sitt í toppsætinu. Ægir er með 32 stig en þar á eftir koma Dalvík/Reynir, Grótta og Þróttur, öll með 26 stig.

Fyrri greinFærin fóru forgörðum gegn toppliðinu
Næsta greinGul viðvörun á föstudagskvöld