Ægir áfram eftir framlengingu

Anton Breki Viktorsson skoraði fyrir Ægi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn eru komnir í 16-liða úrslit í Fótbolti.net bikarnum, bikarkeppni neðrideildarliða, eftir 1-2 sigur gegn Haukum í framlengdum leik á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.

Nenad Zivanovic, þjálfari Ægis, hvíldi lykilmenn í leiknum í kvöld og fátt var að frétta lengst af í fyrri hálfleik. Haukar voru fyrri til að skora en þeir komust yfir rétt fyrir leikhé.

Haukar voru sprækir fyrsta korterið í seinni hálfleiknum og fengu ágæt færi en á 61. mínútu svöruðu Ægismenn fyrir sig. Anton Breki Viktorsson fékk þá sendingu frá hægri og lét vaða fyrir utan vítateig Hauka. Glæsilegt mark og staðan orðin 1-1. Bæði lið fengu færi á lokakaflanum en tókst ekki að skora og því varð að grípa til framlengingar.

Það var svo á 117. mínútu, þremur mínútum fyrir lok framlengingarinnar, að Iván Morán skoraði glæsilegt skallamark eftir hornspyrnu og tryggði Ægi 1-2 sigur.

Dregið verður í 16-liða úrslitin verður í hádeginu á föstudag í beinni textalýsingu á Fótbolta.net.

Fyrri greinÁR-67 gefinn Byggðasafni Árnesinga
Næsta greinStokkseyri tapaði botnslagnum