Ægir á toppnum þrátt fyrir tap

Bjarki Rúnar Jónínuson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn heimsóttu KFA á Neskaupstað í 2. deild karla í knattspyrnu í gær. Þetta var æsispennandi markaleikur þar sem úrslitin réðust í uppbótartímanum.

Ægismenn lentu í brekku strax á upphafsmínútunum því KFA skoraði tvisvar á fyrstu níu mínútunum. Dimitrije Cokic minnkaði muninn á 18. mínútu en Austanmenn juku forskotið jafnharðan og þremur mínútum síðar var staðan orðin 3-1. Bjarki Rúnar Jónínuson rétti hlut Ægismanna á 45. mínútu og staðan var 3-2 í hálfleik.

Það var allt í járnum í seinni hálfleiknum og hvorugu liðinu tókst að skora fyrr en Ægismenn fengu vítaspyrnu á 82. mínútu. Bjarki fór á punktinn og jafnaði 3-3.Lokakaflinn var æsilegur og þar féllu hlutirnir með heimamönnum sem tryggðu sér sigurinn með marki á þriðju mínútu uppbótartímans. Lokatölur 4-3.

Þrátt fyrir tapið eru Ægismenn enn í toppsæti deildarinnar en liðin í toppbaráttunni misstigu sig öll um helgina, nema Haukar sem eru komnir upp í 2. sætið. Ægir er með 26 stig á toppnum en Haukar í 2. sæti með 23 stig eins og Þróttur Vogum.

Fyrri greinErill hjá lögreglunni á Selfossi í nótt
Næsta greinGámur féll af vörubíl á Suðurlandsvegi