Ægir á toppinn eftir öruggan heimasigur

Dimitrije Cokic skorar annað mark Ægis í leiknum í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægismenn lyftu sér upp í toppsæti 2. deildar karla í knattspyrnu í dag með öruggum heimasigri á botnliði Hattar/Hugins. Á sama tíma tapaði Þróttur Vogum 2-0 gegn Víkingi í Ólafsvík og Þróttarar létu þar með toppsætið af hendi.

Þeir gulu voru sterkari í fyrri hálfleik á Þorlákshafnarvelli í dag en gekk illa að nýta sín færi. Á 36. mínútu komust þeir hins vegar yfir með glæsilegu aukaspyrnumarki Stefan Dabetic og reyndist það eina mark fyrri hálfleiks.

Einstefnan hélt áfram í upphafi seinni hálfleiks og Dimitrije Cokic og Atli Rafn Guðbjartsson skoruðu sitthvort markið með mínútu millibili þegar um fimmtán mínútur voru liðnar.

Í stöðunni 3-0 féllu Ægismenn aftar á völlinn og gestirnir gerðu sig líklega. Þeir uppskáru vítaspyrnu á 70. mínútu og skoruðu úr henni og héldu áfram að sækja í kjölfarið. Bjarki Rúnar Jónínuson létti hins vegar pressunni af Ægi þegar hann skoraði eftir skyndisókn á 83. mínútu og breytti stöðunni í 4-1. Höttur/Huginn átti stangarskot strax í kjölfarið en eftir það fjaraði leikurinn út og sigur Ægis var aldrei í hættu.

Eftir sjö umferðir er Ægir í toppsætinu með 16 stig, einu stigi á undan Þrótti Vogum og tveimur stigum á undan Gróttu í 3. sætinu. Næsti leikur Ægis er gegn Gróttu á útivelli á laugardaginn. Höttur/Huginn er áfram í botnsætinu með 2 stig.

Fyrri greinHrafnhildur Inga á Kvoslæk
Næsta greinLangþráður og mikilvægur sigur