Adólf og Njörður taka við Árborg

Njörður og Adólf ásamt Árna Páli Hafþórssyni, forseta Árborgar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Árborgar hefur gengið frá þjálfararáðningu fyrir komandi keppnistímabil. Adólf Bragason og Njörður Steinarsson taka við þjálfun meistaraflokks félagsins, sem leikur í 4. deild karla.

Adólf, sem er með UEFA A þjálfara gráðu, stýrði Árborg við góðan orðstír á árunum 2008-2010. Árið 2010 fór Árborg upp í 2. deild sem er besti árangur í sögu félagsins.

Njörður var leikmaður liðsins á árum áður, hann var leikmaður ársins og markahæstur árið 2002 og lék lykilhlutverk í liðinu árið 2010 þegar félagið fór upp í 2. deild. Njörður skoraði eftirminnilegt mark eftir 6 sekúndur árið 2002 í leik Árborgar og KFS en það er annað af tveimur „fljótustu“ mörkum í sögu Íslandsmótsins.

„Það er bara hrikalega gaman að vera kominn aftur í þjálfaragallann. Ég var nú ekki með í mínum plönum að fara aftur að þjálfa en eftir gott spjall við stjórn Árborgar fór verkefnið að kitla. Það er eins og maður losni aldrei við fótboltann ef maður hefur á annað borð verið innvinklaður í hann. Við vonum að við getum unnið þetta verkefni mjög þétt með Selfoss og búið til gott lið byggt á reyndum leikmönnum í bland við leikmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki. Við tökum við mjög góðu búi af Tomasz Luba og ætlum okkur að halda þeirri góðu vegferð áfram,“ segir Adólf.

„Það er þó nokkuð langt síðan við Addi þjálfuðum saman síðast. Langstærsti hluti leikmanna Árborgarliðsins í dag var hjá okkur í 2. flokki á Selfossi á árunum 2012-2018 og þekkjum við því leikmannahópinn vel. Það eru margir leikmenn í þessum hópi sem fóru áfram og spiluðu í meistaraflokki. Við erum í raun ótrúlega spenntir fyrir verkefninu og það verður gaman að fá að vinna aftur með ungum leikmönnum. Það er mikið tækifæri á Selfossi fyrir þessa brú úr unglingaflokki yfir í meistaraflokk og vonum við að við getum unnið verkefnið vel með Selfoss,“ segir Njörður.

Fyrri greinGul viðvörun vegna rigningar og hvassviðris
Næsta greinSóknin hökti á ögurstundu