Adam tryggði KFR sigur – Stokkseyri tapaði

Hjörvar Sigurðsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnufélag Rangæinga vann 1-3 sigur á KM í 5. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan Stokkseyri tapaði 5-2 gegn Herði á Ísafirði.

Það gekk á ýmsu í leik KFR og KM og mörkin létu á sér standa framan af. Rúnar Þorvaldsson varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net í uppbótartímanum og staðan var 1-0 í hálfleik fyrir KM. Hjörvar Sigurðsson jafnaði fyrir KFR snemma í seinni hálfleik og staðan var 1-1 þegar gera þurfti hlé á leiknum þar sem svakalegt haglél gekk yfir Kópavoginn. Það stóð þó ekki lengi yfir og Rangæingar komu mun betur stemmdir út úr hléinu. Adam Örn Sveinbjörnsson skoraði tvívegis á lokamínútum leiksins og tryggði KFR 1-3 sigur.

Stokkseyringar heimsóttu Hörð á Ísafirði í dag. Stokkseyri komst yfir á 14. mínútu með sjálfsmarki Harðar en heimamenn jöfnuðu metin á 22. mínútu og komust yfir skömmu síðar. Staðan var 2-1 í hálfleik en Harðarmenn skoruðu tvívegis á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks og bættu svo fimmta markinu við þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir. Arilíus Óskarsson rétti hlut Stokkseyringa með marki úr vítaspyrnu á 82. mínútu og þar við sat, lokatölur 5-2.

Staðan í 5. deildinni er þannig að Rangæingar eru í 2. sæti í B-riðlinum, með fullt hús stiga, 6 stig en í A-riðlinum eru Stokkseyringar í 9. sæti, án stiga.

Fyrri grein„Það gerast töfrar í vatninu“
Næsta greinÞriggja daga vakt framundan á Sviðinu