Senegalinn Abdoulaye Ndiaye hefur leikheimild með knattspyrnuliði Selfoss en hann hefur æft með liðinu undanfarnar vikur.
Ndiaye er tvítugur og getur leikið bæði frammi og á kantinum. Hann lék síðast með sterku liði í efstu deild í Senegal og tók lið hans meðal annars þátt í Meistaradeild Afríku. Ndiaye verður væntanlega í leikmannahópi Selfoss gegn KR í Lengjubikarnum á Selfossvelli annað kvöld kl. 19.
Selfyssingar eru með annan Senegala til reynslu þessa dagana en fyrir eru hjá liðinu þeir Babacar Sarr og Sene Abdalha sem léku með liðinu í fyrra.
Samkvæmt heimildum sunnlenska.is munu Ibrahima Ndiaye og Sidy Sow sem léku með liðinu síðastliðið sumar að öllum líkindum ekki snúa aftur á Selfoss í ár.