Fór á þjálfaranámskeið í Sviss með Ólympíustyrk

Valgerður E. Hjaltested í Sviss. Ljósmynd/bogfimi.is

Valgerður E. Hjaltested, frá Hæli í Hreppum, dvaldi síðustu mánuði ársins 2023 í Lausanne í Sviss þar sem hún tók þátt í rúmlega sex vikna námskeiði í afreksíþróttamiðstöð Alþjóða bogfimisambandsins.

Á námskeiðinu lauk Valgerður, sem er starfsmaður Bogfimisambands Íslands, hæsta þjálfarastigi hjá heimssambandinu og er hún annar íslenski þjálfarinn sem nær þessari gráðu í bogfimi.

Greint er frá þessu á heimasíðu Bogfimisambands Íslands en þar segir Valgerður að hún hafi verið ánægð með dvölina og námskeiðið en hún fór til Sviss í október og kom heim í byrjun desember. Hún hafi haft af því bæði gagn og gaman en ekki síst standi upp úr þau tengsl sem hún myndaði við fólk alls staðar að úr heiminum.

Valgerður fyrir utan innganginn á World Archery Excellence Centre í Ólympíuborginni Lausanne. Ljósmynd/bogfimi.is

Víkkar sjóndeildarhringinn
Takmarkaður fjöldi lærlinga er tekinn inn í afreksíþróttamiðstöðina árlega og var Valgerður í hópi lengra kominna þjálfara í greininni frá Brasilíu, Kyrgystan, Bútan og Kýpur.

Þrátt fyrir að hún hafi setið meira en 180 klukkustundir af kennslu segir Valgerður að hún hafi verið mun betur undirbúin fyrir þetta en hún gerði sér grein fyrir og hafi þegar kunnað nánst allt sem var kennt. En að hún hafi safnað sér mikilli reynslu og sjálfsöryggi sem þjálfara í ferðinni. Einnig hafi verið áhugavert að sjá hvernig námskeiðahald, aðferðafræði þjálfara og skipulag getur verið mismunandi á milli landa. Þetta víkkaði reynslu, þekkingu, sjóndeildarhring og sjálfstraust Valgerðar á eigin getu sem þjálfara, ásamt því að vera gífurlega mikilvæg reynsla sem á eftir að hjálpa henni mikið í starfi.

Verkefnið var fjármagnað með styrk frá þróunarsjóði Ólympíusamhjálparinnar en Íþrótta- og ólympíusamband Íslands getur sótt um einn slíkan styrk á hverju ári. Fáir þjálfarar á Íslandi hafa fengið þennan Ólympíustyrk og er Valgerður sú fyrsta á Íslandi sem sækir námskeiðið fyrir hönd Bogfimisambands Íslands.

Valgerður einbeitt að þjálfa á þjálfaranámskeiði að greina tækni íþróttamanns. Ljósmynd/bogfimi.is
Fyrri greinBergrós sigraði á jólamóti lyftingasambandsins
Næsta greinMest lesnu fréttir ársins 2023