Heilsu- og hvatninarverkefnið Hjólað í vinnuna, sem stóð yfir í þrjár vikur í vor, er lokið og fór verðlaunaafhending fram í húsakynnum ÍSÍ í hádeginu í gær.
Alls tóku 4.346 virkir þátttakendur frá 330 vinnustöðum þátt í verkefninu í ár og hjóluðu þeir samtals 297.450 km sem samsvarar 222 hringjum í kringum landið. Á sambandssvæði HSK tóku 29 vinnustaðir úr sjö sveitarfélögum þátt. Efnalaug Suðurlands, sem hefur margoft tekið þátt, varð í öðru sæti á landsvísu í keppni vinnustaða með 3-9 starfsmenn.
Hjólað í vinnuna er fyrir marga vorboðinn ljúfi og gott merki þess að sumarið er á næsta leiti. Megin markmið verkefnisins er að þátttakendur hugi að daglegri hreyfingu og nýti til þess virkan ferðamáta til og frá vinnu, en það er einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi.
Nokkrir leikir voru í gangi á meðan á átakinu stóð og veglegir vinningar voru í boði. Vinningshafa má finna á heimasíðu Hjólað í vinnuna.
HSK þakkar vinnustöðum á sambandssvæðinu fyrir þátttökuna.