„Að spila úrslitaleik er bara drulluhollt fyrir þessa stráka“

Þór Þorlákshöfn og Stjarnan mætast í úrslitaleik Lengjubikars karla í körfubolta í Iðu kl. 16:30 á laugardag. Undanúrslitaleikirnir fóru fram í Iðu í kvöld.

„Þetta var kaflaskipt. Ég er ánægður með baráttuna og karakterinn. Við vorum duglegir varnarlega í fyrri hálfleik en þeir taka 15 sóknarfráköst á móti 14 varnarfráköstum okkar og við vorum yfir. Það er óskiljanlegt. En við vorum að spila boltanum vel og vorum með frábæra skotnýtingu. Mér fannst við aldrei eiga skilið að tapa þessum leik þó að þetta hafi staðið óþarflega tæpt í lokin,“ sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, í samtali við sunnlenska.is í leikslok.

„Við erum án Grétars og Halldórs Garðars sem eru báðir lykilmenn í liðinu og við fórum með hóflegar væntingar inn í daginn þannig að ég er hrikalega ánægður með þetta. Þetta verður bara gaman á morgun og morgundagurinn snýst bara um það að njóta. Baldur er elstur í þessu liði, 25 ára, á meðan við erum án Grétars. Og fyrir þessa stráka að fá að spila úrslitaleik er bara drulluhollt á þessum tímapunkti og gefur okkur spark inn í keppnistímabilið,“ sagði Einar Árni ennfremur.

Þórsarar mættu ákveðnir til leiks gegn Haukum og leiddu í hálfleik 48-42. Haukar náðu að komast yfir í seinni hálfleik og lokakaflinn var æsispennandi. Þór leiddi með einu stigi, 83-82 þegar Haukar fengu boltann með 7 sekúndur á klukkunni en gestirnir reyndu erfitt skot utan af velli í lokin sem var ekki nálægt því að fara niður.

Tölfræði Þórs: Vance Michael Hall 28 stig/8 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 19 stig/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 14 stig/8 fráköst, Baldur Þór Ragnarsson 10 stig/4 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 4 stig/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 4 stig, Davíð Arnar Ágústsson 2 stig, Hraunar Karl Guðmundsson 2 stig.

Stjarnan sterkari gegn FSu
Í fyrri leik kvöldsins mættust FSu og Stjarnan. Þar höfðu Stjörnumenn undirtökin framan af leiknum og leiddu í hálfleik 39-50. Seinni hálfleikurinn var jafnari en FSu-liðinu tókst ekki að brúa bilið sem Garðbæingar bjuggu sér til í fyrri hálfleik. Lokatölur urðu 81-91.

Tölfræði FSu: Christopher Anderson 24 stig/8 fráköst, Ari Gylfason 21 stig/5 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 10 stig, Birkir Víðisson 8 stig, Cristopher Caird 6 stig/9 fráköst/5 stoðsendingar, Geir Elías Úlfur Helgason 6 stig, Maciej Klimaszewski 4 stig, Arnþór Tryggvason 2 stig/4 fráköst.

Sunnlendingarnir í liði Stjörnunnar voru drjúgir, Justin Shouse var stigahæstur með 24 stig, Marvin Valdimarsson skoraði 17 og Sæmundur bróðir hans 2 auk þess að taka 6 fráköst.

Úrslitaleikur karla er í Iðu kl. 16:30 á laugardag en á undan, kl. 14:00, mætast Keflavík og Haukar í úrslitaleik kvenna.

Fyrri grein„Þær spiluðu á einhverjum eiturgufum“
Næsta grein„Sem betur fer var varnarleikurinn frábær“