Aðdáendaklúbbur Viðars Arnar kominn á netið

Í síðustu viku var stofnaður aðdáendaklúbbur fyrir knattspyrnumanninn Viðar Örn Kjartansson frá Selfossi, sem leikur með Jiangsu Guoxin-Sainty í Kína.

Stofnendur klúbbsins eru vinir hans og félagar úr Knattspyrnufélagi Árborgar. Markmiðið með aðdáendasíðunni er að færa íslenskum aðdáendum Viðars upplýsingar um lífið í Kína og sigra hans á þeim slóðum ásamt því að kynna Kínverja fyrir þeim dáðadreng sem Viðar er.

„Mikil umræða hefur verið um það að erfitt muni reynast að fylgjast með kappanum í Asíu og því ákváðum við Árborgarar að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að upplýsingaflæðið til og frá Íslandi um Viðar Örn verði eins og best verður á kosið,” sagði Guðjón Bjarni Hálfdánarson, einn stjórnarmanna stuðningsmannaklúbbsins, í samtali við sunnlenska.is, en félagsmenn í klúbbnum kalla sig Zeturnar og vísa þar í margfrægt fagn Viðars.

Að sögn Guðjóns vonast Árborgarar til þess að með þessu framlagi muni Viðar fá þá umfjöllun sem hann á skilið, haldi landsliðssæti sínu og verði öðrum íþróttamönnum á Íslandi og um heim allan frábær fyrirmynd. „Endilega fylgist með honum og tökum öll saman þátt í þessu skemmtilega ævintýri okkar manns.”

Heimasíða stuðningsmannaklúbbsins verður kjartanssonfanclub.is og fer hún í loftið á næstu dögum en stofnuð hefur verið Facebooksíða, sem mun færa fréttir þegar áhugaverðir hlutir gerast.

Fyrri greinRúlluplast brennt í skurði
Næsta greinMeta kostnað við ljósleiðara