Áætlun Þróttara gekk upp

Selfyssingar töpuðu fyrir Þrótti R. í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, 0-1 á heimavelli í ákaflega bragðdaufum leik.

Fyrri hálfleikur var tilþrifalítill en Selfyssingar voru meira með boltann og reyndu árangurslaust að finna glufur á vörn Þróttar.

Staðan var 0-0 í hálfleik en í síðari hálfleik jókst sóknarþungi Selfyssinga eftir því sem leið á leikinn. Þeim gekk þó illa að opna vörn Þróttar og fengu engin dauðafæri en nokkur álitleg hálffæri. Þróttarar lágu aftarlega og beittu skyndisóknum og úr einni slíkri skoraði Oddur Björnsson á 83. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Selfoss sótti án afláts á lokamínútunum og Viðar Kjartansson var nálægt því að skora rétt undir lokin en markvörður Þróttar varði vel frá honum.

Selfoss er áfram í 2. sæti með 32 stig og fjögurra stiga forskot á BÍ/Bolungarvík sem er í 3. sæti.