79 ára kylfingur fór holu í höggi

Karl Gunnlaugsson, formaður Golf­klúbbs­ins Flúðir til 25 ára, fór holu í höggi á 1. braut Selsvallar á Flúðum hinn 12. október sl.

Þetta er fyrsta sinn sem hann nær þessum árangri. Leikið var á sumarflatir á Selsvelli.

Karl var þarna að leika með frænda sínum og jafnaldra, Jóhannesi Sigmunds­syni og fleirum, en þeir Karl og Jóhannes verða báðir 79 ára í nóvember.

Jóhannes var nýbúinn að afhenda Karli afmælishúfu Héraðssambandsins Skarphéðins og hans fyrsta högg með húfuna rataði beint í holuna. Þá varð Jóhannesi að orði: „Ja, mikill er máttur Skarphéðins gamla.“

Að lokum skal þess getið að Karl lék á 77 höggum, eða „tveimur undir aldri“ sem er einstakur árangur, sem Karl hefur reyndar áður náð að leika eftir.