70 keppendur í Bláskógaskokki

Ljósmynd/Magnús Jóhannsson

Hið árlega Bláskógaskokk HSK var haldið laugardaginn 13. júní síðastliðinn og tóku 70 hlauparar þátt í hlaupinu.

Líkt og í fyrra sá tímataka.is um tímatökuna og nú með nýrri tækni þar sem svokölluð flaga var í keppnisnúmerinu. Það reyndist vel, nema hjá þeim sem fór úr jakkanum með númerinu í miðju hlaupi!

Keppendur gátu valið um tvær vegalengdir, 10 eða 5 mílur. Lengri vegalengdin var frá Gjábakka að Laugarvatni og sú styttri frá Laugardalsvöllum að Laugarvatni. Fyrstu keppendur í karla- og kvennaflokki fengu sérverðlaun sem voru í boði Hótel Arkar í Hveragerði.

Níu HSK met voru sett í hlaupinu. Guðný Hrund Rúnarsdóttir bætti HSK metið í kvennaflokki í 5 mílum og í flokki 40-44 ára. Sigursveinn Sigurðsson sem kom fyrstur í mark í 5 mílum setti HSK met í karlaflokki og í flokki 40-44 ára. Renuka Chareyre Perera setti HSK met í flokki 45-49 ára og Eydís Katla Guðmundsdóttir var með met í 55-59 ára flokki.

Þrjú HSK met voru sett í 10 mílna hlaupinu. Hjónin Sigmundur Stefánsson og Ingileif Auðunsdóttir settu met í 65-69 ára flokki og Björn Magnússon setti met í 70-74 ára flokki.

Að loknu hlaupi bauð sundlaugin á Laugarvatni öllum í sund og MS gaf drykki.

HSK þakkar samstarfsaðilum, styrktaraðilum og sjálfboðaliðum fyrir þeirra framlag.

Heildarúrslit má sjá hér. Myndirnar hér fyrir neðan tók Magnús Jóhannsson.

 

Fyrri greinAðalleið bauð lægst í hringtorg við Landvegamót
Næsta greinSystkinin best á Selfossi