24 tíma heimferð Þóris

Það tók handknattleiksmanninn Þóri Ólafsson rúman sólarhring að komast heim til sín í Lübbecke eftir landsleikina gegn Frökkum á Íslandi um síðustu helgi.

„Það var töluverð óvissa með flug út aftur og ég fékk að vita á mánudagsmorgun, þremur tímum fyrir flug, að ég væri að fara af stað og þá var ég staddur á Selfossi. Það var svo seinkun á fluginu til Svíþjóðar en á endanum lentum við í Gautaborg um 19:30. Þá tók við alveg ógleymanleg ferð í smárútu þar sem bílstjórinn rataði ekki alveg stystu leiðina til Þýskalands,“ sagði Þórir með stírurnar í augunum þegar sunnlenska.is náði sambandi við hann í gær.

„Við vorum komnir til Hannover um kl. 9:30 og þá tók við lestarferð til Lübbecke. Ég var kominn heim á hádegi, lítið sofinn og myglaður,“ sagði Þórir.

Þórir var ánægður með eigin frammistöðu í leikjunum gegn Frökkum. Hann skoraði þrjú mörk í jafnteflisleiknum á föstudagskvöld en komst ekki á blað í seinni leiknum.

„Ég var sáttur með mínar 30 mínútur. Maður vill alltaf spila meira en ég reyndi að gera það besta úr þeim tíma sem ég fékk,“ sagði Þórir sem var ánægður með Íslandsheimsóknina þrátt fyrir þreytandi ferðalag til baka.

Fyrri greinMonaco skoðar Stefán betur
Næsta greinSkoða fiskeldi og matvælaeldhús