23 héraðsmet sett á Áramótamóti á Selfossi

Alls voru 23 HSK met sett á Áramótamóti frjálsíþróttadeildar Selfoss, sem haldið var í íþróttahúsi Vallaskóla á Selfossi þann 30. desember síðastliðinn.

Eva María Baldursdóttir Selfossi gerði sér lítið fyrir og bætti HSK metið í kvennaflokki í hástökki án atrennu um einn sentimetra, þegar hún sveif yfir 1,36 metra. Eva María er einungis 14 ára gömul og því er þetta einnig met í fimm yngri aldursflokkum. Hún lét þetta ekki nægja því hún setti einnig HSK met í þrístökki án atrennu í 14 ára flokki, stökk 7,49 m.

Ýmir Atlason úr Umf. Selfoss bætti 57 ára gamalt met Sveinbjörns Benediktssonar í langstökki án atrennu í flokki 16 – 17 ára þegar hann stökk 3,08 metra.

Guðmundur Nikuláksson setti samtals tíu HSK met í flokki 55 – 59 ára í hástökki án atrennu, langstökki án atrennu og þrístökki án atrennu, en Jón M. Ívarsson átti metin í þessum greinum. Guðmundur stökk 1,40 m í hástökki, 2,61 í langstökki og 7,12 m í þrístökki. Loks bætti Ágústa Tryggvadóttir HSK metið fimm sinnum í hástökki án atrennu í flokki 30 – 34 ára, stökk hæst 1,10 metra.

Fyrri greinRíkiskaup semur við TRS um kaup á netþjónum
Næsta greinÍris framlengir samning sinn