222 stig á Laugarvatni

Laugdælir töpuðu 97-125 þegar þeir tóku á móti Valsmönnum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld.

Gestirnir völtuðu yfir Laugdæli í upphafi leiks og leiddu með 28 stiga mun að loknum 1. leikhluta, 9-37. Laugdælir réttu úr kútnum með því að skora 38 stig í næsta leikhluta en staðan í hálfleik var 47-71.

Síðari hálfleikur var jafn og áfram var mikið skorað. Laugdælir minnkuðu muninn lítillega í 3. leikhluta en Valsmenn voru öruggir á endasprettinum og unnu verðskuldaðan sigur.

Sigurður Orri Hafþórsson og Bjarni Bjarnason voru báðir með 27 stig fyrir Laugdæli. Pétur Már Sigurðsson skoraði 18 og Jón H. Baldvinsson 15.