2. flokkur byrjar vel

Lið Selfoss í 2. flokki karla vann góðan 3-1 sigur á HK í fyrsta heimaleik Íslandsmótsins á Jáverk-vellinum á föstudagskvöld.

„Þetta var flottur leikur hjá okkur, menn vel stemmdir í góða veðrinu og baráttan til fyrirmyndar,“ sagði Njörður Steinarsson, annar af þjálfurum liðsins, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við erum með flottan hóp og erum bara glaðir að mótið er byrjað. Þetta er búið að vera krefjandi vetur við erfiðar aðstæður. Leikurinn í kvöld var heilt yfir mjög góður af okkar hálfu og sigurinn sanngjarn. Við erum mjög stoltir af okkar liði“.

Arnar Einarsson kom Selfoss yfir 1-0 með laglegum skalla eftir hornspyrnu á 8. mínútu. Heimamenn voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust yfir 2-0 með marki Arnórs Gíslasonar á 44. mín eftir flott sampil upp vinstri vænginn.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og kom Gunnar Bjarni Oddsson Selfoss í 3-0 strax í upphafi seinni hálfleiks. Gestirnir úr Kópavoginum minkuðu muninn á 59 mínútu en lengra komust þeir ekki .

Lokatölur 3-1 og sigur í fyrsta heimaleik liðsins sem leikur undir merkjum Selfoss/Hamars/Ægis/Árborgar.

Næsti leikur 2. flokks verður á Þróttaravelli sunnudaginn 31. maí.

Fyrri greinUmrót vegna nýrrar námsskrár kemur niður á árangri nemenda
Næsta greinBrotist inn í tvö fjölbýlishús á Selfossi