150 keppendur á biðlista

Ljósmynd/Aðsend

Einn stærsti íþróttaviðburður það sem af er sumars, utanvegahlaupið Hengill Ultra, fer fram í Hveragerði laugardaginn 6. júní.

Þá hlaupa 600 keppendur fimm mismunandi vegalengdir í fimm mismunandi ræsingum frá Hveragerði um Reykjadal og Hengilssvæðið. Það seldist upp í hlaupið um síðustu mánaðamót og margir því þurft frá að hverfa.

Lengsta ræsing mótsins er Hengill Ultra 100km og eins og nafnið gefur til kynna er það 100 km að lengd og eru keppendur í því ræstir föstudagskvöldið 5. júní til þess að komast í mark á tilskildum tíma á laugardegi.

„Það er ljóst að við gætum hæglega verið með 800 keppendur eða meira í ár, það eru um hundrað og fimmtíu keppendur á biðlista. Við viljum bara halda okkur innan þess ramma sem almannavarnir hafa lagt upp með. Það tryggir öryggi allra,” segir Þórir Erlingsson, einn af skipuleggjendum mótsins.

Hluti af mótaröðinni Víkingar
Hengill Ultra er nú haldin í níunda sinn en hlaupið hefur verið að skapa sér nafn sem einn af stóru viðburðum ársins. Hlaupið er hluti af mótaröðinni Víkingar en mótaröðin samanstendur af fjórum almenningsíþróttakeppnum í hjólreiðum og utanvegahlaupum en þátttaka í þessum íþróttagreinum hefur margfaldast á milli ára. Mótaröðin er skipulögð í samráði við UMFÍ sem verðlaunar þá keppendur sem taka þátt í öllum mótum raðarinnar hvert ár. Þeir sem taka þátt í öllum mótum sumarsins komast í Víkingasveitina.

Hinar þrjár keppnirnar eru hinn goðsagnakenndi KIA Gullhringur 11. júlí, Landsnet fjallahjólakeppnin 4. september og svo Eldslóðin daginn eftir laugardagsinn 5. september en þær keppnir fara fram í Garðabæ og í upplandi Heiðmerkur.

Fyrri greinHamar og Þór með sameinað kvennalið
Næsta greinOpnað inn í Reykjadal á hvítasunnudag