13,4 milljónir króna til sunnlenskra íþróttafélaga

Hestamannafélagið Geysir fékk hæsta styrkinn á Suðurlandi en ekkert varð af landsmóti hestamanna sem halda átti á Hellu. Mynd: Gígja D. Einarsdóttir

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands úthlutaði í dag rúmlega 150 milljónum króna til íþróttahreyfingarinnar til að mæta áhrifum COVID-19.

Í maí var auglýst eftir umsóknum frá sambandsaðilum og íþrótta- og ungmennafélögum sem höfðu orðið fyrir tapi eða tekjufalli sem hætt var við á vormánuðum. Alls bárust 98 umsóknir og var heildarupphæð þeirra 700 milljónir króna.

Hestamannafélagið Geysir fékk hæstu úthlutunina af félögum á sambandssvæði HSK, 8,1 milljón króna. Handknattleiksdeild Selfoss fékk tæpar 2,9 milljónir króna, Hestamannafélagið Sleipnir rúmlega 1,1 milljón króna, Knattspyrnufélagið Ægir 645 þúsund krónur, knattspyrnudeild Hamars 540 þúsund krónur og Ungmennafélag Stokkseyrar tæplega 99 þúsund krónur.

Það var mat vinnuhópsins sem fór yfir umsóknirnar að þessi úthlutun sé einungis til að mæta áhrifum vegna samkomubanns á vormánuðum, frá 1. mars til 1. júní. Í tilkynningu frá ÍSÍ segir að það sé ljóst að áhrif annarrar bylgju faraldursins séu veruleg á íþróttahreyfinguna og því nauðsynlegt að unnið verði með stjórnvöldum að meta það tjón og finna leiðir til að styðja við þá aðila innan íþróttahreyfingarinnar sem misst hafa mikilvæga tekjumöguleika til að fjármagna starfsemi sína.