134 HSK met sett á síðasta ári

Í HSK fréttum á síðasta ári var reglulega sagt frá nýjum HSK metum í frjálsíþróttum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja í upphafi nýs árs voru samtals 134 HSK met sett á síðasta ári.

Haldið er utan um metaskrár HSK í öllum flokkum frá 11 ára aldri, bæði innan- og utanhúss og reynt er að uppfæra metaskrárnar eftir hvert mót.

Styrmir Dan Steinunnarson úr Þór setti flest HSK met á árinu, en samtals setti hann 21 met og var hluti þeirra einnig Íslandsmet. Næst komu Jónína Guðný Jóhannsdóttir Selfossi og Fannar Yngvi Rafnarsson Þór, en þau settu bæði átta HSK met á árinu.

Kristinn Þór Kristinsson Samhygð setti flest HSK met í fullorðinsflokki, eða samtals fjögur met. Ólafur Guðmundsson setti flest HSK met í öldungaflokkum, en hann setti samtals sjö HSK met á árinu.

Til gamans má geta þess að 71 ára aldursmunur var á yngsta og elsta HSK methafa ársins. Benjamín Guðnason Selfossi varð 10 ára á síðasta ári, en hann setti HSK met í sleggjukasti í 11 ára flokki. Þeir elstu eru Tómas Jónsson Selfossi og Guðni Guðmundsson Garpi, en þeir urðu 81 árs á liðnu ári og settu báðir eitt HSK met á árinu. Kona Guðna, Margrét Þórðardóttir Garpi setti tvö HSK met á árinu og varð þar með elst kvenna til að setja HSK met, en hún varð 76 ára á árinu.

HSK metaskrár, þar sem einnig má sjá yfirlit allra HSK meta sem sett voru á síðasta ári má nálgast á vef HSK.

Fyrri greinFrábær þátttaka í Jólaflíkinni
Næsta greinJólin kvödd á Selfossi á föstudagskvöld