Þúsundir við setningu Unglingalandsmóts

Þúsundir gesta voru samankomnir á Selfossvelli í kvöld þegar 15. Unglingalandsmót UMFÍ var sett við hátíðlega athöfn í sumarblíðu.

Yfir tvöþúsund þátttakendur eru skráðir í mótið en keppni hófst í morgun og stendur fram á sunnudag.

Setningarathöfnin hófst á því að keppendurnir gengu fylktu liði inn á völlinn. Að því búnu var hvítbláinn dreginn að húni og ungir hestamenn komu ríðandi með unglingalandsmótseldinn inn á svæðið. Marín Laufey Davíðsdóttir, glímudrottning, tók við kyndlinum og tendraði unglingalandsmótseldinn.

Ávörp fluttu Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson og Katrín Jakobsdóttir, ráðherra íþróttamála.

Ingó Veðurguð tók lagið og í lokinn var afhjúpaður bautasteinn á íþróttavallarsvæðinu til minningar um mótin sem haldin hafa verið á Selfossi, Landsmótið ’78 og Unglingalandsmótið í ár.

Í kvöld var síðan kvöldvaka í hátíðartjaldinu á tjaldsvæðinu og keppni og skemmtun morgundagsins hefst svo klukkan átta í fyrramálið og stendur fram á kvöld.

Fyrri greinÞung umferð á Selfossi
Næsta greinLandsmót 50+ í Vík