„Þurfum toppleik í kvöld“

Framherji Selfyssinga, Sævar Þór Gíslason, hefur refsað varnarmönnum Hauka grimmilega í síðustu viðureignum liðanna og hann á von á hörkuleik í kvöld.

„Menn eru alveg komnir niður á jörðina aftur eftir KR-leikinn. Við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því að nú þegar við erum að spila í deild þeirra bestu þá erum við litla liðið og við verðum að mæta klárir í hvern einasta leik. Það þarf toppleik í hverri umferð,“ sagði Sævar Þór þar sem sunnlenska.is náði í skottið á honum í vinnunni í kjötvinnslu Krás í morgun.

„Þetta verður allt öðruvísi leikur en KR-leikurinn. Þetta er nýliðaslagur og einn af sex stiga leikjunum. Við töpuðum fyrir Fylki heima í 1. umferðinni og það kemur ekki til greina að tapa fleiri leikjum á heimavelli.“

Haukar og Selfoss hafa verið samferða síðustu þrjú ár upp úr 2. deild og Sævar hefur iðulega farið mikinn í leikjum liðanna. Í síðustu fjórum leikjum gegn Haukum hefur Sævar skorað sex mörk. „Þetta er nú ekki tölfræði sem ég pæli mikið í en það hefur verið gaman að mæta Haukum, sérstaklega þegar vinur minn Þórhallur Dan hefur verið í vörninni. Það hafa reyndar orðið breytingar á varnarlínunni þeirra en þetta verður örugglega gaman í kvöld,“ segir Sævar sem á von á mikilli stöðubaráttu í leiknum.

„Þetta verður stöðubarátta á miðjunni og örugglega hörkuleikur. Það er bara 100% fókus fyrir leik og ég efast ekki um að við verðum klárir. Það var létt yfir mönnum á æfingu í gær og þetta lítur vel út. Ég vona bara að fólk láti ekki regnið stoppa sig og fjölmenni á völlinn,“ sagði Sævar að lokum.

Fyrri greinBiskup úrskurðar sr. Óskari í vil
Næsta greinRisavaxin blúshátíð í Rangárþingi