„Þurfum að vera á tánum allan leikinn“

„Það er hörkustemmning í hópnum og menn eru staðráðnir í því að snúa við blaðinu í kvöld,“ segir Ingi Rafn Ingibergsson, leikmaður Selfoss.

Ingi Rafn mætir fyrrum félögum sínum í ÍBV í Pepsi-deildinni í kvöld á Hásteinsvelli og hlaupagikkinn hlakkar mikið til að mæta til Eyja. „Þó að við séum búnir að tapa síðustu fjórum deildarleikjum þá er fínn andi í liðinu og menn eru tilbúnir að leggja sig fram. Við vitum að við erum að fara á erfiðan útivöll, líklega þann erfiðasta í deildinni. Við stefnum á að verja stigið sem við mætum með í leikinn og svo sjáum við til hvernig leikurinn þróast hvort við nælum ekki í tvö til viðbótar,“ segir Ingi Rafn sem þekkir vel til í herbúðum ÍBV.

„Ég var þarna síðustu fjögur tímabil og það er virkileg tilhlökkun að koma til Eyja. Þeir eru búnir að standa sig vel í sumar og ég vona að ég fái tækifæri til að taka aðeins á þeim í kvöld,“ segir Ingi Rafn en hann hefur eytt meiri tíma á tréverkinu heldur en á (gervi)grasinu í sumar.

„Ég var í byrjunarliðinu á móti Val og átti ekkert sérstakan leik en ég held að ég hafi staðið mig ágætlega í þessum leikjum sem ég hef verið að koma inná. Mér finnst ég a.m.k. alltaf skila mínu,“ segir Ingi Rafn en töluverð barátta er um stöður í Selfossliðinu, í það minnsta framarlega á vellinum. „Já, það er sem betur fer hörð barátta um stöður og ungu strákarnir hafa verið að standa sig vel,“ segir reynsluboltinn með bros á vör en hann var elstur í byrjunarliðinu á móti Val á dögunum, 27 ára gamall.

Eyjamenn hafa verið þekktir fyrir varnarleik en með tilkomu Tryggva Guðmundssonar hefur sóknarleikur liðsins braggast til muna. „Ég á samt ekki von á opnum leik, þetta verður þéttur leikur þar sem bæði lið reyna að sækja hratt. Eyjamenn eru vanir að byrja af krafti og við verðum að passa okkur á því að vera á tánum allan leikinn. Það er engin aðstaða í Eyjum þannig að þeir hafa allan veturinn til að hlaupa og eru tilbúnir í 90 mínútur plús.“

Fyrri greinHlynur Geir á EM
Næsta greinÓlafur Áki rekinn úr Sjálfstæðisflokknum