Þurfti ekki að hugsa sig lengi um

„Ég hlakka til að takast á við þetta. Það eru spennandi tímar hérna framundan,“ sagði Gunnar Guðmundsson, nýráðinn þjálfari Selfoss í knattspyrnu. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við félagið í dag.

Hann hefur séð um þjálfun u17 landsliðs karla síðan árið 2009, en hann mun hætta í því starfi um áramótin.

Logi Ólafsson, fyrrverandi þjálfari Selfoss, skrifaði undir samning við Stjörnuna í gær. Eftir það gengu viðræður við Gunnar auðveldlega, en hann var einn af þeim sem rætt var við fyrir tveimur árum áður en Logi tók við.

„Þannig að maður hefur alltaf haft Selfoss í baksýnisspeglinum. Þegar þessi staða kom upp þá þurfti maður ekkert að hugsa sig lengi um.“

Gunnar hrósaði umgjörðin á Selfossi. „Stjórnin er sterk og hefur verið lengi saman og unnið gott starf. Stuðningur bæjarbúa við liðið er góður. Ég held að þessi samvinna og samtakamáttur hérna er það sem gerir liðið sterkt og ég verð náttúrlega bara partur af því,“ sagði þjálfarinn sem er þegar búinn að kynna sér leikmannahópinn vel.

„Ef það tekst að halda kjarnanum þá er það mjög spennandi hópur. Eins og staðan er akkurat í dag þá er mikið um óvissu og ég held að það sé mikilvægt að eyða sem mest af óvissunni. Síðan þurfum við bara að bæta upp á það ef eitthvað vantar.“

Selfyssingar eru vongóðir um það að Halldór Björnsson verði aðstoðarþjálfari Gunnars, en viðræður við hann standa nú yfir.

„Ef það gengur upp með hann þá yrði ég himinlifandi og sáttur með það. Ég hef átt gott samstarf við Halldór og ég tel hann vera rétta manninn fyrir mig.“

Gunnar vildi ekki vera með of miklar yfirlýsingar um markmið fyrir næsta sumar. „Það er vetur framundan og við þurfum að sjá hvernig við náum að vinna úr okkar málum í vetur og hvernig við stöndum í vor þegar mótið byrjar. Það er eðlilegra að setja sér markmið þá heldur nú þegar svona margir hlutir eru óljósir.“

Fyrri greinGunnar þjálfar Selfyssinga
Næsta greinSamið við Vörðufell um leikskólabyggingu