„Þú getur rétt ímyndað þér hversu súrt þetta er“

Selfoss tapaði mikilvægum stigum í Olís-deild kvenna í handbolta í dag þegar liðið tapaði fyrir Gróttu í Vallaskóla, 25-30.

„Þú getur rétt ímyndað þér hversu súrt þetta er. Við erum búin að tapa fjórum stigum í vetur á móti þessu liði, sem við eigum að vinna. Þessi vetur snýst allur um smáatriði og við erum búin að klikka núna tvisvar í leik þar sem við eigum að fá stig en fáum ekki, þökk sé okkar eigin frammistöðu en ekki andstæðingsins,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

Leik­ur­inn fór hægt af stað en fljót­lega náði Grótta frum­kvæðinu og for­skot þeirra varð mest fimm mörk þegar rúm­ar tutt­ugu mín­út­ur voru liðnar, 6-11. Þá kom frábær kafli hjá Selfyssingum sem skelltu í lás í vörninni og skoruðu fimm mörk í röð á fjögurra mínútna kafla. Þá var staðan orðin 11-11 en leikar stóðu 14-14 í hálfleik.

Seinni hálfleik­ur var mjög fjör­ug­ur og spenn­andi. Það var jafnt á öll­um töl­um upp í 25-25, þegar fimm mínútur voru eftir. Þá fór allt í baklás hjá Selfyssingum sem skoruðu ekki meira í leiknum á meðan Grótta skoraði fimm mörk í röð og tryggði sér öruggan sigur.

Hrafn­hild­ur Hanna Þrast­ar­dótt­ir skoraði 12/​3 mörk fyr­ir Sel­foss og var langmarkahæst. Adina Ghidoarca, Dijana Radojevic, Carmen Palamaru og Perla Albertsdóttir skoruðu allar 3 mörk fyrir Selfoss og Kristrún Steinþórsdóttir 1. Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 9 skot í marki Selfoss og Áslaug Ýr Bragadóttir 2.

Eftir leikinn er Selfoss í fallstæi, 7. sætinu með 4 stig en Grótta hefur 6 stig í 6. sæti deild­ar­inn­ar.

Fyrri greinSunnlenskir hestamenn rökuðu inn verðlaunum
Næsta greinHamar lá á útivelli