Þrjú mörk á fjórum mínútum gerðu út um leikinn

Hamar lagði Njarðvík í B-deild Lengjubikars karla í knattspyrnu í dag, 4-2, þegar liðin mættust á Selfossvelli.

Njarðvík komst yfir á 14. mínútu en einni mínútu síðar jafnaði Óskar Smári Haraldsson metin fyrir Hamar. Hamar var nálægt því að komast yfir á 37. mínútu þegar aukaspyrna Ingþórs Björgvinssonar fór í þverslána. Njarðvíkingar áttu hins vegar lokaorðið í fyrri hálfleik þegar þeir skoruðu 1-2 á 45. mínútu leiksins og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Hvergerðingar afgreiddu leikinn á fjögurra mínútna kafla í síðari hálfleik. Ingþór jafnaði úr vítaspyrnu á 60. mínútu og bætti öðru marki við mínútu síðar. Á 63. mínútu skoraði Óskar Smári aftur og staðan allt í einu orðin 4-2. Mörkin urðu ekki fleiri í leiknum en þetta var fyrsti sigur Hamars í riðlinum.

Fyrri greinSlasaður vélsleðamaður í Veiðivötnum
Næsta greinÞórsarar komnir í sumarfrí