Þrír Sunnlendingar í landsliðinu

Þrír Sunnlendingar eru í A-landsliði karla í knattspyrnu sem mætir Kanada í tveimur vináttulandsleikjum á Orlando í Florida 16. og 19. janúar.

Þeir Jón Daði Böðvarsson, Viking, Jón Guðni Fjóluson, Sundsvall og Guðmundur Þórarinsson, Sarpsborg eru allir í leikmannahópnum. Af þeim þremur er Jón Daði leikjahæstur með átta landsleiki, Jón Guðni hefur leikið fimm landsleiki og Guðmundur einn.

Ekki er um alþjóðlegan leikdag að ræða og því fengu ekki allir leikmenn leyfi liða sinna til að taka þátt. Þar á meðal var Viðar Örn Kjartansson sem leikur með Vålerenga í Noregi.

Leikið verður á velli University of Central Florida, UCF Soccer and Track Complex, sem staðsettur er í Orlando í Florida. Leikirnir verða sýndir í opinni dagskrá hjá Skjá Sport.

Fyrri greinSlökkti eldinn með snjó
Næsta greinNokkrir sunnlenskir listamenn á meðal launþega