Þrír Rangæingar til Algarve

Þrír Rangæingar eru í landsliðshópi kvennaliðs Íslands sem tekur þátt í Algarve-mótinu í Portúgal 2.-9. mars næskomandi.

Þetta eru þær Hólmfríður Magnúsdóttir, leikmaður Avaldsnes, Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður Portland Thorns og Hrafnhildur Hauksdóttir leikmaður Selfoss.

Hólmfríður er leikreyndust þremenninganna, en hún var á dögunum heiðruð fyrir 100 landsleiki. Dagný hefur leikið 57 landsleiki en Hrafnhildur lék sinn fyrsta landsleik gegn Póllandi fyrr í mánuðinum.

Mótið stendur yfir frá 2.-9. mars en með Íslandi í riðli eru Danmörk, Kanada og Belgía.

Íslenska liðið hefur leik gegn Belgíu þann 2. mars, næsti leikur er gegn Danmörku þann 4. mars og seinasti leikurinn í riðlinum er gegn Kanada þann 7. mars. Eftir það taka við leikir um sæti.

Fyrri greinRangárþing ytra og KFR endurnýja þjónustusamning
Næsta greinÞór lét af störfum eftir 25 ára formennsku