Þrír Norðurlandameistaratitlar á Selfoss

Daníel Jens Pétursson og Ingibjörg Erla Grétarsdóttir, Umf. Selfoss, vörðu í gær Norðurlandameistaratitla sína í taekwondo á Norðurlandamótinu sem haldið var í Þrándheimi í Noregi um helgina.

Fimm keppendur frá taekwondodeild Umf. Selfoss voru valdir í landsliðið sem fór á mótið og unnu allir Selfyssingarnir til verðlauna á mótinu.

Daníel Jens vann báða bardagana sína í -80 kg flokki með miklum mun, þann fyrri með 12 stigum gegn engu og var bardaginn stöðvaður vegna stigamismunar. Seinni bardaginn fór 13-3 á móti sterkum, norskum keppanda og átti hann ekkert í Daníel.

Ingibjörg Erla Grétarsdóttir vann fyrri bardagann sinn í -59 kg flokki með tæknilegu rotsparki þar sem mótherjinn gat ekki haldið áfram þegar staðan var 10-1. Seinni viðureign hennar fór 6-2 en andstæðingurinn sá aldrei sá til sólar í bardaganum.

Gunnar Snorri Svanþórsson vann fyrri bardagann sinn í -55 kg flokki cadett með tólf stiga reglunni og í bardaganum um Norðurlandameistaratitilinn vann Gunnar einnig með miklum yfirburðum.

Dagný María Pétursdóttir vann fyrsta bardagann sinn í -63 kg flokki junior með 13 stigum gegn einu stigi , hún vann einnig næsta bardaga örugglega en bardaganum um gullið tapaði hún með minnsta mun eða með 9 stigum gegn 10 á síðustu sekúndum lotunnar.

Kristín Björg Hrólfsdóttir tapaði fyrri bardaganum sínum í -59 kg flokki með 2 stigum gegn 7. Hún keppti síðan um bronsverðlaunin og hafði betur.

Meistari deildarinnar, Master Sigursteinn Snorrason stýrði sínu fólk á mótinu með þessum frábæra árangri.

Af þeim 21 verðlaunum í poomsae og sparring sem Ísland vann sér inn voru 6 gullverðlaun 9 silfur og 6 bronsverðlaun. Í sparring fékk Ísland 5 gull, 5 silfur og 3 bronsverðlaun og af þeim á taekwondodeild Umf. Selfoss 3 gull, 1 silfur og 1 brons. Sannarlega frábær árangur.

Fyrri greinÖruggt hjá FSu á Akureyri
Næsta greinRaw jarðarberja- og súkkulaðikaka