Þrír Íslandsmeistaratitlar í húsi

HSK/Selfoss varð í 4. sæti í stigakeppni félaganna og keppendur liðsins tryggðu sér þrjá Íslandsmeistaratitla á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Akureyri um helgina.

HSK varð í 4. sæti af tólf liðum með 13.805 stig. Karlaliðið fékk 7.542 stig og kvennaliðið 6.263 stig.

Fjóla Signý Hannesdóttir varð Íslandsmeistari í 400 m grindahlaupi á 61,37 sek eftir spennandi hlaup og þá varð hún önnur í 100 m grindahlaupi kvenna á 14,45 sek.

Kristinn Þór Kristinsson varð Íslandsmeistari í 800 m hlaupi karla á 1:53,02 mín og hlaut bronsverðlaun í 400 m hlaupi á 50,96 sek.

Þá tryggði Ólafur Guðmundsson sér Íslandsmeistaratitilinn í 110 m grindahlaupi á 15,92 sek.

Haraldur Einarsson varð annar í þrístökki karla þegar hann stökk 13,79 m og Ágústa Tryggvadóttir varð þriðja í kúluvarpi kvenna, kastaði 11,05 m.

Fyrri greinFannar Ingi undir pari á lokahringnum
Næsta greinEinar æfir með Löwen