Þrír fengu gullmerki HSK

Haraldur Júlíusson, Lísa Thomsen og Þorgeir Vigfússon voru sæmd gullmerki HSK á Héraðsþingi sambandsins sem sett var í Brautarholti á Skeiðum í morgun.

Auk þeirra var Ragnar Sigurðsson, fráfarandi varaformaður og félagsmaður í Umf. Þór, sæmdur silfurmerki sambandsins.

Gullmerkishafarnir hafa allir starfað í áratugi innan sambandsins og eru nefndarmenn í Sögu- og minjanefnd sambandsins og Þorgeir er að auki fyrrverandi ritari sambandsins.

Öll hafa þau verið í framlínunni hjá félögum sínum, Haraldur með Umf. Njáli, Lísa með Umf. Hvöt og Þorgeir með Umf. Skeiðamanna.

Í upphafi þings afhenti Guðríður Aadnegard, formaður HSK, Körfuknattleiksdeild Hamars foreldrastarfsbikarinn, Hestamannafélaginu Geysi unglingabikarinn og Ungmennafélag Selfoss fékk bikar sem stigahæsta félag í heildarstigakeppni ársins. Selfyssingar sigruðu með 200 stig.

Reikningar sambandsins voru lagðir fram en rúmlega 1,1 milljóna króna hagnaður var af rekstri sambandsins sem er góður viðsnúningur frá árinu 2010.

Fyrri greinFjórða Inghólskvöldið í kvöld
Næsta greinFanney og Anný fengu starfsmerki UMFÍ