Þriggja mínútna sprettur dugði Val

Staða Hamars versnaði í kvöld en liðið er áfram í botnsæti Iceland Express deildar kvenna í körfubolta eftir 68-73 tap á heimavelli gegn Val.

Fyrsti leikhlutinn var jafn en Hamar var skrefinu á undan og leiddi að honum loknum 13-11. Það sama var uppi á teningnum í 2. leikhluta en um hann miðjan tók Valur 14-2 sprett og náði forystunni, 20-29. Hamar minnkaði muninn í fjögur stig fyrir leikhlé, 29-33.

Jafnræðið hélt áfram í 3. leikhluta en undir lok hans seig Hamar framúr og leiddi þegar 4. leikhluti hófst, 50-47. Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum leiddi Hamar, 64-60, en þá fór allt í baklás hjá Hvergerðingum og Valskonur gengu á lagið. Valur skoraði þrettán stig gegn fjórum á síðustu þremur mínútunum en Valskonur voru komnar í bónus og skoruðu meðal annars úr níu af tólf vítaskotum sem þær fengu á lokakaflanum.

Samantha Murphy var best í liði Hamars með 30 stig. Katherine Graham skoraði 11, Kristrún Rut Antonsdóttir og Álfhildur Þorsteinsdóttir 8, Jenný Harðardóttir 7 og Sóley Guðgeirsdóttir 4. Álfhildur var frákastahæst með 14 fráköst en næst henni kom Marín Davíðsdóttir með 10 fráköst.

Á sama tíma vann Fjölnir Njarðvík þannig að bilið jókst á botninum milli Hamars, sem situr þar með 4 stig, og Fjölnis sem er í 7. sæti með 8 stig.

Fyrri greinSelur sand úr Landeyjahöfn
Næsta greinFærri skjálftar en óleystur vandi