Þriðji sigurinn á átta dögum

Eftir afleita byrjun í Iceland Express-deild kvenna hefur Hamar unnið þrjá leiki í röð á síðustu átta dögum. Hamar lagði Val á heimavelli í kvöld, 86-83.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimastúlkur en Valur komst í 0-7 og bætti heldur í en þær náðu að opna vörn Hamars vel meðan skotin rötuðu ekki rétta leið hjá Hamri. Staðan var 17-27 eftir 1. leikhluta og þegar ein mínúta var liðin af 2. leikhluta var staðan orðin 19-34 en þá skoraði Hamar 13 stig í röð og breytti leiknum heldur betur. Eftir það var jafnræði með liðunum og staðan var 41-44 í hálfleik.

Viljinn var til góðra verka var mikill hjá báðum liðum og baráttan mikil en í byrjun 3. leikhluta féllu hlutirnir með Val sem skoraði sex fyrstu stigin í seinni hálfleik. Í stöðunni 48-58 tóku Hamarskonur við sér og skoruðu 11 stig í röð en staðan var jöfn að loknum 3. leikhluta, 63-63. Hjá Hamri var Katherine Graham á öðrum fætinum eftir að hún snéri sig á ökkla í 3. leikhluta en áfram hélt hún samt!

Síðasti fjórðungurinn var jafn og spennandi þar sem nokkuð var um tæknimistök á báða bóga en nú náði Hamar loksins smá forystu. Hamar komst í 74-67 en Valur jafnaði 74-74. Hamar var sterkari á lokakaflanum, spilaði góða vörn og komst í 85-76. Þá skoraði Valur fimm stig í röð og staðan var 85-81 og síðasta mínútan að renna út. Graham setti niður eitt víti þegar tæpar 12 sekúndur voru eftir. Valskonur minnkuðu muninn í þrjú stig þegar tæpar níu sekúndur voru eftir en Hamar náði að hanga á boltanum í síðustu sókninni eftir mikinn hamagang á vellinum og 86-83 sigur var staðreynd.

Þetta var þriðji sigurinn í röð hjá Hamri á átta dögum og eru Hvergerðingar nú ofar Fjölni á töflunni með betra innbyrðis skor en bæði lið eru með 10 stig meðan Valur er næsta lið fyrir ofan með 14 stig.

Graham var stigahæst hjá Hamri með 26 stig en besti maður liðsins var Samantha Murphy með 24 stig og 7 stoðsendingar. Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 14 stig og Íris Ásgeirsdóttir 11 en hún var með 100% skotnýtingu fyrir utan, setti niður þrjár þriggja stiga körfur.

Fyrri greinHSu fékk fjölda gjafa í fyrra
Næsta greinDæmdur maður í farbanni flúði land