Þrettán milljón króna framlag í íþróttasvæðið

Sveitarfélaginu Árborg hefur verið úthlutað þrettán milljónum króna í styrk til uppbyggingar íþróttasvæðisins við Engjaveg fyrir landsmótin sem halda á 2012 og 2013.

Styrknum er úthlutað af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Þetta er annar styrkurinn sem sveitarfélagið fær til verkefnisins en tíu milljónir króna komu af fjárlögum ríkisins.

Að sögn Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra Árborgar, er ætlunin að sækja aftur um á næsta ári en sveitarfélagið hefur í heildina óskað eftir sextíu milljón króna styrk frá ríkinu til mannvirkjagerðar á svæðinu. Hún á þó ekki von á að sveitarfélagið fái alla þá upphæð í styrk.

Áætlaður heildarkostnaður við breytingar á svæðinu er um hálfur milljarður króna.

Fyrri greinMikið sungið í Þorlákshöfn
Næsta greinÞór mætir Snæfelli í úrslitakeppninni