„Þrennan kemur einn daginn“

Dagný Brynjarsdóttir skoraði tvö mörk þegar Ísland vann Slóvakíu 4-0 í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld.

„Við byrjuðum fyrstu þrjátíu mínúturnar vel en duttum svo aðeins niður fyrir hálfleik. Seinni hálfleikur var upp og niður, en við skoruðum nokkur góð mörk og tókum þrjú stig og héldum hreinu þannig að við kláruðum öll markmið dagsins,“ sagði Dagný í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Hún kom Íslandi í 2-0 á 21. mínútu með góðu skallamarki og bætti svo þriðja markinu við þegar 35 sekúndur voru liðnar af síðari hálfleik – aftur með skalla. Dagný var tekin af velli á 78. mínútu en áður en kom að því hafði hún komið boltanum í þriðja sinn í netið, en markið var dæmt af vegna rangstöðu, sem var líklega rangur dómur.

„Ég hef ekki skorað þrennu síðan ég var í KFR, nokkrum sinnum skorað tvö mörk, þannig að það var svekkjandi að þriðja markið hafi verið dæmt af. Það fyrsta sem ég fæ að heyra þegar ég kem útaf er að það var varnarmaður á línunni þannig að ég var ekkert rangstæð. Svekkjandi, en ég á þrennuna greinilega inni,“ sagði Dagný létt.

Hún var ánægð með leikinn í heild sinni þó að leikurinn hafi verið kaflaskiptur.

„Það sást á okkur á köflum að þið vorum ekki búnar að vera lengi saman sem lið. Núna höfum við nokkra góða daga saman fyrir Skotaleikinn á þriðjudaginn til þess að stilla okkur betur saman og ná ennþá betri leik.“

Dagný hefur verið að glíma við hnémeiðsli undanfarnar vikur en er á batavegi og segist alltaf fljót að komast í form.

„Ég er búin að vera að koma mér í gang með Portland. Ég spilaði síðast 90 mínútur þann 30. júlí, meidd, en missti svo af tveimur leikjum í kjölfarið. Ég er búin að vera að koma inn af varamannabekknum í síðustu tveimur leikjum. Í síðasta leik spilaði ég 30 mínútur og þetta er allt að koma. Það er það mikil samkeppni þarna úti að þegar maður kemur úr meiðslum þá labbar maður ekkert inn í liðið,“ segir Dagní sem var sátt við 77 mínúturnar sem hún spilaði í kvöld.

„Ég var mjög sátt við þessar mínútur í dag og þetta er góð leið til þess að komast í leikform. Völlurinn var erfiður, hann var laus í sér og ég hef ekki spilað á grasi síðan ég veit ekki hvenær. Við spilum á gervigrasi úti í Bandaríkjunum. Þegar við vorum að spila vel og halda boltanum þá var þetta flott. Ég vil alltaf spila betur og gera betur og ég reikna með að spila betur í næsta leik,“ segir Dagný en þorir þó ekki að lofa þrennunni í þeim leik.

„Með sigri á Skotum vinnum við riðilinn og það er markmiðið. Við förum í þann leik til þess að halda hreinu og spila góðan varnarleik. Það verður erfiðari leikur og ég ætla ekki að lofa neinu varðandi markaskorun, en það væri gaman. Þrennan kemur einn daginn.“

Fyrri greinÓtrúleg úrslit að Hlíðarenda
Næsta greinMílan heldur uppteknum hætti