Þórsurum velt úr toppsætinu

Þórsarar féllu niður um þrjú sæti af toppi Domino's-deildar karla í körfubolta þegar Skallagrímur kom í heimsókn í Þorlákshöfn í kvöld. Gestirnir sigruðu 72-76.

Þórsarar voru sannfærandi í 1. leikhluta og leiddu að honum loknum, 20-8. Skallagrímur minnkaði muninn í fjögur stig í upphafi 2. leikhluta, 23-19, en Þór svaraði með 14-4 kafla og breytti stöðunni í 36-23. Skallagrímur gaf aftur í og staðan var 39-30 í hálfleik.

Skallagrímur minnkaði forskot Þórs jafnt og þétt í 3. leikhluta og að honum loknum var munurinn tvö stig, 56-54. Gestirnir komust yfir strax í upphafi 4. leikhluta og eftir það var leikurinn í járnum. Ben Smith jafnaði 72-72 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum með því að skora úr þremur vítaskotum í röð og gestirnir skoruðu tvö stig strax í næstu sókn.

Á lokamínútunni klikkuðu Þórsarar á fjórum þriggja stiga skotum á meðan Skallagrímur setti tvö stig af vítalínunni og kláraði leikinn. Lokatölur voru 72-76.

David Jackson var stigahæstur hjá Þór með 24 stig og 10 fráköst. Ben Smith skoraði 19 og Guðmundur Jónsson og Darrell Flake voru báðir með 11. Darri Hilmarsson skoraði 7 stig en aðrir leikmenn Þórs komust ekki á blað.

Fyrri greinEngin þrettándagleði í Hveragerði
Næsta greinHeitavatnslaust í Ölfusinu – viðgerð lokið