Þórsurum spáð fjórða sæti

Forráðamenn, þjálfarar og fyrirliðar liðanna í Domino's-deild karla í körfubolta spá Þórsurum í Þorlákshöfn fjórða sætinu í deildinni í vetur.

Árlegur kynningarfundur KKÍ fyrir komandi vertíð í körfuboltanum var haldinn í dag og þar var spáin afhjúpuð.

Tímabilið hjá Þórsurum hefst á þriðjudaginn í næstu viku þegar liðið tekur á móti Njarðvík í Þorlákshöfn.

Í viðtali á karfan.is í dag segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, að undirbúningstímabilið hafi gengið ágætlega en liðið eigi enn svolítið í land.

„Það verður fljótt að koma þar sem það eru litlar breytingar á hópnum. Menn hafa nýtt sumarið misjafnlega og þeir sem nýttu það vel munu njóta góðs af því í vetur. Þorsteinn Ragnarsson og Erlendur Stefánsson lentu í erfiðum meiðslum og óvíst hvenær þeir koma til baka og þurfa örugglega sinn tíma að komast á gott ról,“ segir Benedikt.

Leikmannahópur Þórs er svipaður og í fyrra utan hvað skipt hefur verið um erlenda leikmenn. Darrel Flake, sem er íslenskum körfuknattleiksunnendum af góðu kunnur, gekk í raðir Þórsara í sumar og sömuleiðis framherjinn Robert Diggs.

Spá fyrir Domino´s deild karla gerð af forráðamönnum, þjálfurum og fyrirliðum í deildinni:

1. KR
2. Stjarnan
3. Grindavík
4. Þór Þorlákshöfn
5. Snæfell
6. Keflavík
7. ÍR
8. Njarðvík
9. Tindastóll
10. Fjölnir
11. KFÍ
12. Skallagrímur

Fyrri greinHótel Anna er bær mánaðarins
Næsta greinÞingmenn funduðu með sveitarstjórnar-mönnum