Þórsarar völtuðu yfir Skallagrím

Þór Þorlákshöfn lét Skallagrím finna til tevatnsins þegar liðin mættust í Domino's-deild karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Lokatölur voru 110-91.

Þórsarar byrjuðu af krafti og leiddu eftir 1. leikhluta, 28-22. Í 2. leikhluta léku Þórsarar síðan á alls oddi og pökkuðu gestunum hreinlega saman. Leikhlutinn fór 36-11 og þar með höfðu Þórsarar skorað 64 stig í fyrri hálfleik en nánast öll skot duttu í körfuna hjá þeim. Staðan í hálfleik var 64-33.

Yfirburðir Þórsara héldu áfram í 3. leikhluta og juku þeir forskotið í 37 stig, 91-54. Gestirnir svöruðu hins vegar fyrir sig í síðasta fjórðungnum en voru ekki nándar nærri því að skapa einhverja spennu í leiknum – til þess var munurinn orðinn alltof mikill.

„Við vorum að svínhitta í fyrri hálfleik og alveg hægt að segja að þá hafi leikurinn unnist, sérstaklega í öðrum leikhluta en þar leggjum við langstærsta grunninn að sigrinum. Við fengum framlag frá mörgum í kvöld og þegar við náum því þá erum við bara helvíti sprækir. Þegar við lendum ekki í því að eldri leikmennirnir séu eitthvað að reyna að draga vagninn og þeir ungu koma inn með sitt góða framlag þá lítum við flott út,“ sagði Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs, í samtali við karfan.is eftir leik.

Nemanja Sovic var stigahæstur Þórsara með 30 stig, Ragnar Nathanaelsson skoraði 24 og tók 12 fráköst, Mike Cook Jr. skoraði 20 stig, Tómas Heiðar Tómasson 19 og Baldur Þór Ragnarsson 10 auk þess að senda 12 stoðsendingar.

Grétar Ingi Erlendsson skoraði 19 stig fyrir Skallagrím, gegn sínum gömlu félögum.

Þór er núna í 5. sæti deildarinnar með 8 stig og mætir toppliði KR á útivelli á fimmtudagskvöld.
Fyrri greinMagdalena heldur í Hljóðkútinn
Næsta greinÞrettán á biðlista Kirkjuhvols