Þórsarar upp í 3. sætið

Þór vann nokkuð öruggan sigur á KFÍ í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Jafnræði var lengst af með liðunum en Þór átti góða rispu í 3. leikhluta sem dugði til sigurs.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi jöfn, 47-47. Þórsarar mættu hins vegar mun ákveðnari til síðari hálfleiks og náðu mest átján stiga forskoti en staðan að loknum 3. leikhluta var 77-61. KFÍ minnkaði muninn niður í níu stig í upphafi 4. leikhluta en þá hrukku Þórsarar aftur í gírinn og héldu haus til loka.

Mike Cook Jr. var besti maður vallarins með 33 stig, Nemanja Sovic skoraði 22, Tómas Heiðar Tómasson 17 og Ragnar Nathanaelsson 10 auk þess sem hann tók 12 fráköst. Baldur Þór Ragnarsson skoraði 9 stig, Emil Karel Einarsson 7, Þorsteinn Már Ragnarsson 6 og þeir Vilhjálmur Atli Björnsson og Halldór Garðar Hermannsson skoruðu báðir 2 stig.

Þórsarar eru nú í 3. sæti deildarinnar með 16 stig en næstu lið fyrir neðan eiga leik til góða á þá grænklæddu.

Fyrri greinFjörutíu manns bjargað af Lyngdalsheiði
Næsta greinGlogovac í Ægi