Þórsarar undir í einvíginu

Þór Þ og Haukar mættust í kvöld í þriðja leiknum í einvígi liðanna í Domino's-deild karla í körfubolta. Haukar sigruðu 84-75 og leiða nú 1-2 í einvíginu.

Leikurinn var jafn í 1. leikhluta, en í 2. leikhluta tóku Haukar frumkvæðið og leiddu í leikhléi, 42-36. Kaninn í liði Hauka, Brandon Mobley, var rekinn úr húsi í 1. leikhluta fyrir að slá til Davíðs Arnar Ágústssonar, en fjarvera Mobley virtist ekki fá mikið á Haukaliðið.

Þriðji leikhlutinn var jafn og spennandi en undir lok hans gerðu Þórsarar áhlaup og náðu forystunni, 59-61. Þórsarar héldu forskotinu fram í miðjan 4. leikhluta en þá kom góður kafli hjá Haukum sem náðu átta stiga forskoti í kjölfarið, 78-70. Þórsarar klikkuðu á mikilvægum skotum undir lok leiks og Haukar sigruðu með níu stiga mun, 84-75.

Fjórði leikurinn í einvíginu verður í Þorlákshöfn þriðjudaginn 29. mars kl. 19:15. Sigri Haukar í þeim leik eru Þórsarar komnir í sumarfrí, annars verður oddaleikur á Ásvöllum í Hafnarfirði 31. mars.
Tölfræði Þórs: Vance Hall 18 stig/7 fráköst, Ragnar Nathanaelsson 12 stig/13 fráköst, Ragnar Bragason 10 stig/5 fráköst, Grétar Erlendsson 10 stig/5 fráköst, Davíð Ágústsson 9 stig, Emil Einarsson 8 stig/4 fráköst, Þorsteinn Ragnarsson 4 stig, Baldur Ragnarsson 2 stig, Halldór Hermannsson 2 stig.
Fyrri greinSiglt eftir góðu stigi til Eyja
Næsta greinSyst­ur taka við rekstri Litlu kaffi­stof­unn­ar