Þórsarar töpuðu í háspennuleik

Þór Þorlákshöfn tapaði naumlega fyrir Stjörnunni á útivelli þegar liðin mættust í Domino's-deild karla í körfubolta í kvöld. Lokatölur voru 97-95.

Leikurinn var jafn í upphafi en þegar leið á 1. leikhluta sigu Þórsar framúr og leiddu 23-31 að tíu mínútum liðnum. Stjarnan minnkaði bilið í 2. leikhluta og staðan var 48-52 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var jafn eins og sá fyrri, liðin skiptust á að skora en Þórsarar voru yfir allt þangað til fimm sekúndur voru eftir af 3. leikhluta en þá jafnaði Stjarnan, 74-74.

Við tók æsispennandi lokaleikhluti þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna en þegar 57 sekúndur voru eftir leiddu Þórsarar með einu stigi, 89-90. Stjarnan svaraði með þriggja stiga körfu og heimamenn stálu svo boltanum aftur og fyrrum Þórsarinn Junior Hairston tróð Stjörnunni í 94-90 þegar átján sekúndur voru eftir.

Þórsarar gerðu allt hvað þeir gátu til að jafna en Mýrdælingurinn Justin Shouse fór tvívegis á vítalínuna fyrir Stjörnuna á lokasekúndunum og tryggði sínum mönnum sigurinn.

Mike Cook Jr. skoraði 30 stig fyrir Þór, Nemanja Sovic 24, Tómas Heiðar Tómasson 15, Emil Karel Einarsson 9, Ragnar Nathanaelsson 8, Baldur Þór Ragnarsson 6 og Þorsteinn Már Ragnarsson 3.

Fyrri greinHætta starfsemi Selsins
Næsta greinListasafn Árnesinga opnað á ný