Þórsarar töpuðu á Króknum

Þór Þorlákshöfn tapaði þegar liðið heimsótti Tindastól á Sauðárkrók í Iceland Express-deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Lokatölur voru 97-80.

Eftir jafna byrjun þá tóku Tindastólsmenn fína forystu í 1. leikhluta, 30-22, en í stöðunni 35-25 stigu Þórsarar á bensíngjöfina og náðu að jafna, 43-43. Staðan í hálfleik var 48-47.

Þriðji leikhluti var stál í stál í meira stál og jafnt á mörgum tölum en staðan að honum loknum 70-67. Stólarnir byrjuðu betur í síðasta fjórðungnum og náðu tólf stiga forskoti, 88-76, þegar fimm mínútur voru eftir.

Þá tóku Þórsarar leikhlé og á leið útaf vellinum ákvað Matthew Hairston að stoppa í Tindastólshópnum og vera með læti. Hvað hann gerði nákvæmlega er ekki alveg ljóst en a.m.k. lá einn leikmaður Stólanna í gólfinu eftir framgöngu Hairston. Dómarar leiksins, sem voru reyndar hinu megin í húsinu, virtust hins vegar vera alveg vissir um hvað hefði gerst og vísuðu Hairston umsvifalaust úr húsi. Í kjölfarið var síðan einum leikmanna Tindastóls einnig vísað úr húsi. Þessi læti fóru ekki vel í Þórsarana og leikur þeirra fjaraði út.

Darrin Govens var stigahæstur Þórsara með 21 stig, Blagoj Janev átti ágætan leik og skoraði 20 stig, Matthew Hairston 16 og Darri Hilmarsson 10.

Fyrri greinHamar undir gegn ÍA
Næsta greinForstjóri Domino's skellti í pizzu