Þórsarar sprækir á útivelli

Þór vann góðan útisigur á Snæfelli í Domino’s-deild karla í körfubolta í kvöld en liðin eru á svipuðum slóðum um miðja deild.

Fyrri hálfleikur var jafn þar sem liðin skiptust á góðum sprettum en staðan var 47-49 í hálfleik, Þórsurum í vil.

Þórsarar mættu svo vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og náðu fimmtán stiga forskoti í 3. leikhluta. Heimamenn virtust slegnir út af laginu og Þorlákshafnarliðið lét kné fylgja kviði í 4. leikhluta og tryggði sér góðan sigur, 86-101.

Grétar Ingi Erlendsson var drjúgur undir körfunni í kvöld og skoraði 31 stig Nemanja Sovic skoraði 18 en besti maður vallarins var Darrin Govens sem skoraði 15 stig, tók 10 fráköst og sendi 9 stoðsendingar. Tómas Heiðar Tómasson og Baldur Þór Ragnarsson skoruðu báðir 14 stig, Oddur Ólafsson 5 og þeir Þorsteinn Már Ragnarsson og Emil Karel Einarsson skoruðu 2 stig hvor.

Þór er nú í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en Snæfell er í 6. sæti með 16 stig.

Fyrri greinHamarsmenn önduðu léttar í lokin
Næsta greinSelfoss tapaði í Árbænum