Þórsarar snöggkældu KR-inga

Þórsarar jöfnuðu metin í einvíginu við KR í úrslitakeppni Iceland Express deildar karla í körfubolta í kvöld. Sannfærandi 94-76 sigur og staðan er 1-1.

Darrin Govens fór fyrir Þór í leiknum en hann gerði 30 stig, tók 5 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og stal 5 boltum. Skömmu fyrir leik barst Þórsurum liðsstyrkur í Joseph Henley sem fyllir skarð Matthew Hairston vegna meiðsla. Henley gerði 13 stig og tók 6 fráköst í leiknum og komst vel frá sínu ferskur út úr Fríhöfninni. Hann lenti í dag og lærði kerfin af Hairston í bílnum milli Keflavíkur og Þorlákshafnar.

Þór gerði fimm fyrstu stig leiksins og komst síðan í 24-12 en þannig stóðu leikar eftir 1. leikhluta. Allt ætlaði svo um koll að keyra á upphafsmínútum 2. leikhluta þegar Þórsarar komust í 35-16. KR svaraði með svæðisvörn og gekk hún þokkalega en staðan 49-33 í hálfleik þar sem Govens var kominn með 16 stig og Darri Hilmarsson 11 en Darri var stórgóður í kvöld.

Það var sama hvað KR reyndi, Þórsarar áttu alltaf svör og hættu aldrei. Vörn þeirra grænu var firnasterk frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu, einkennismerki nýliðanna og með græna drekann í stúkunni var KR aldrei að fara að sjá til sólar. Loks datt munurinn yfir 20 stigin og staðan 73-51 eftir 3. leikhluta.

Þó KR hafi unnið fjórða leikhluta 21-25 var skaðinn engu að síður skeður. KR tók ekki þátt í glímunni sem boðið var upp á í Þorlákshöfn í kvöld og lágu því 94-76. Að sama skapi áttu Þórsarar vísast einn sinn besta leik á tímabilinu og að innleiða nýjan leikmann á þessum tímapunkti getur verið vægast sagt hættulegt þá gekk það eins og best verður á kosið.

Darrin Govens var frábær eins og áður hefur komið fram og skoraði 30 stig. Guðmundur Jónsson og Darri áttu ljómandi góða spretti, Guðmundur skoraði 17 stig og Darri 14. Blagoj Janev skoraði 14 stig, Henley 13, Grétar Ingi Erlendsson 4 og Baldur Þór Ragnarsson 2.

Næsti leikur er í Frostaskjólinu á sunnudagskvöld kl. 19:15.

Umfjöllun karfan.is

Fyrri greinKR vann í kuldanum
Næsta greinKafarinn á gjörgæsludeild