Þórsarar sigruðu á lokasprettinum – Mæta KR í undanúrslitum

Þórsarar eru komnir í undanúrslit Iceland Express-deildar karla í körfubolta eftir magnaðan sigur á Snæfelli, 72-65, í oddaleik í Þorlákshöfn í kvöld.

Þórsarar höfðu frumkvæðið í 1. leikhluta, leiddu 10-4 eftir þrjár mínútur og staðan var 20-13 að tíu mínútum loknum.

Gestirnir gerðu áhlaup í upphafi 2. leikhluta og minnkuðu muninn í 22-19 en Þórsliðið hélt sínu striki eftir það og leiddi í hálfleik, 37-33.

Þórsarar virtust ætla að sigla nokkuð létt í gegnum 3. leikhluta þar sem þeir komust í 52-37 en Snæfell skoraði þrettán síðustu stigin í leikhlutanum og minnkaði muninn í 52-50.

Ófarir Þórsara héldu áfram í upphafi 4. leikhluta þar sem Snæfell fór hamförum á fyrstu mínútunum. Snæfell komst í 54-63 og hafði þá skorað 25 stig gegn 2 á stuttum kafla.

Með bakið upp að vegg bættu Þórsarar í á lokakaflanum og Blagoj Janev minnkaðu muninn í 59-63 með þriggja stiga körfu þegar rúmar þrár mínútur voru eftir. Snæfell svaraði með tveggja stiga körfu í næstu sókn en það reyndust síðustu stig gestanna og á síðustu tveimur og hálfri mínútunum skoruðu Þórsarar þrettán stig í röð og tryggðu sér sigurinn.

Þar munaði mikið um góða vítanýtingu en Þórsarar fóru tíu sinnum á vítalínuna á síðustu fjórum mínútunum og sökktu öllum vítaskotunum.

Fögnuður Ölfusinga var ósvikinn í lokin en í undanúrslitunum mæta þeir grænu KR og það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki fer í úrslitarimmuna gegn Grindavík eða Stjörnunni. Leikur 1 er á mánudaginn í DHL-höllinni.

Útlendingarnir í liði Þórs áttu allir fínan leik í kvöld, sem og Darri Hilmarsson. Darrin Govens var stigahæstur með 21 stig, Blagoj Janev skoraði 19 og Darri 11. Maður leiksins var hins vegar Matthew Hairston sem skoraði 10 stig, tók 15 fráköst og varði 7 skot. Grétar Ingi Erlendsson skoraði 6 stig og Guðmundur Jónsson 5.

Undanúrslit: KR(2)-Þór Þ.(3)
Leikur 1 – Mánudagur 9. apríl kl. 19:15 KR-Þór Þ. – DHL-höllin
Leikur 2 – Fimmtudagur 12. apríl kl. 19:15 Þór Þ.-KR – Iceland Glacial-höllin
Leikur 3 – Sunnudagur 15. apríl kl. 19:15 KR-Þór Þ. – DHL-höllin
Leikur 4 – Miðvikudagur 18. apríl kl. 19:15 Þór Þ.-KR – Iceland Glacial-höllin – ef þarf
Leikur 5 – Sunnudagur 22. apríl kl. 19:15 KR-Þór Þ. – DHL-höllin – ef þarf

Fyrri greinTap í fyrsta Lengjubikarleik
Næsta greinYarisinn fundinn