Þórsarar rúlluðu yfir FSu

Þórsarar unnu sannfærandi sigur á FSu í 32-liða úrslitum Powerade bikars karla í körfubolta í kvöld, 114-79.

Liðin mættust í Þorlákshöfn og tóku heimamenn leikinn í hendur sínar strax í 1. leikhluta en staðan var 36-17 að honum loknum. Þórsarar kláruðu svo leikinn í upphafi 2. leikhluta með því að skora fjóra þrista í röð á móti tveimur stigum FSu og þá var staðan 50-19.

FSu tók við sér í 2. leikhluta og minnkaði muninn niður í 21 stig fyrir leikhlé, 61-40. Því forskoti héldu Þórsarar allt fram á lokamínútur leiksins þegar þeir áttu 13-2 leikkafla og munurinn var 35 stig að lokum.

Munurinn á nýtingu þriggja stiga skota hjá liðunum var mikill því Þórsarar skoruðu 16 þriggja stiga körfur úr 21 tilraun á meðan þrjú af 26 skotum FSu utan teigs rötuðu ofaní.

Eric Palm skoraði 32 stig fyrir Þórsara, Philip Perre 29, Hjalti Valur Þorsteinsson 24 og Vladimir Bulut 15.

Hjá FSu skoraði Richard Field 52% stiga liðsins, eða 42 stig, auk þess að taka 16 fráköst. Valur Orri Valsson kom næstur honum með 11 stig.

Fyrri greinRafmagnsleysi á Selfossi
Næsta greinGrótta lagði straumlausa Selfyssinga